Skip

Í sumar hefur ógurlegur fjöldi skemmtiferðaskipa komið í Skutulsfjörðinn. Sum leggjast að bryggju, en önnur eru svo stór að þau kasta akkerum fyrir utan og senda farþega á léttarbátum í land. Ég fylgist auðveldlega með skipaferðum úr höllinni og það þó ég sjái ekki niður á höfn. Ég þarf nefnilega bara að kíkja út um glugga að morgni dags. Ef ferðafólk í eldri kantinum gengur hægt framhjá, glápir um allt og myndar höllina með rándýrum vélum, þá er skip. Það bregst aldrei. Farþegar skemmtiferðaskipa eru auðþekktir og ekki aðeins vegna aldursins. Þeir ganga yfirleitt í allt öðrum takti en aðrir ferðamenn, eru í dýrum, snyrtilegum, en ekki smart ferðafötum, yfirleitt með rosa flottar myndavélar og þeir mynda höllina og önnur hús mun meira en aðrir ferðamenn. Um daginn voru Frakkar á ferð. Ég lá í hægindastólnum mínum og dormaði að sönnum aumingjasið. Börnin og húsbóndinn voru úti svo ég naut kyrrðarinnar. Þá var barið kröftuglega í vegginn fyrir aftan mig. Ég hrökk hroðalega við og hélt helst að einhver hefði keyrt á hornið. Þegar ég leit út sá ég að Frakkarnir voru að banka í höllina og ræða ákaft saman. Ég skildi ekki alveg hvað þeir sögðu, en náði því þó að þeir voru að ræða um gerð hallarinnar. Þetta gerðist svo nokkrum sinnum yfir daginn. Mér fannst þetta nú heldur mikill dónaskapur og hugleiddi að setja upp skilti á frönsku : “Bankið ekki, aumingi sefur inni” en ég kann of lítið í frönsku og orðabókin er komin niður í kassa.

Print Friendly

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *