Bækur

Það er lestrarátak í bekk litlu dömunnar þessa daga. Hún tekur það að sjálfsögðu alvarlega og hefur verið mjög dugleg að lesa – eins og hún er reyndar alltaf. Lesefnið er fjölbreytt, fræðsluefni um lifnaðarhætti mörgæsa , kafli úr ritsafni Sigurbjörns Sveinssonar (sem ég fann í Góða hirðinum um daginn), tvær bækur um Millý Mollý Mandý (sem henni fundust reyndar leiðinlegar), Barnabiblían, og margt fleira. Svo kom hún heim með fallega myndabók sem ég man ekki í svipinn hvað heitir, Svona verða börnin til eða eitthvað svoleiðis. Hún er sænsk og var lengi til í svona týpískri ´70 útgáfu, þar sem konurnar voru í mussum og karlarnir í brúnum flauelsbuxum. Myndirnar voru mjög blátt áfram og greinargóðar. Þetta er virkilega fín bók sem ég notaði mikið í kynfræðslu yngri barna á meðan ég var að kenna. Já flissið þið bara, það veitir sko ekkert af því að kenna litlum börnum hvernig hlutirnir eru í raun og veru á þessum tímum klámvæðingar og brenglunar skal ég segja ykkur. Myndirnar í nýju bókinni eru mun penni og krúttlegri en í þeirri gömlu, en samt fannst litlu dömunni hún frekar dónarleg.

Núna er hún að lesa ritsafn Vilborgar Dagbjartsdóttur Fugl og fiskur og það finnst henni mjög skemmtilegt. Á kvöldin lesum við svo saman Stjörnur og strákapör eftir Kristínu Steinsdóttur og ég hlæ oftast upphátt í öðrum hverjum kafla. Við erum búnar með hinar tvær í seríunni og þær eru allar jafn skemmtilegar. Drengurinn er búinn að ljúka sínu lestaraátaki, bekkurinn hans fékk óvissuferð í verðlaun fyrir góðan árangur og þau fóru m.a. yfir Mýrdalssand í brjáluðu sandfoki að skoða fiskeldi. Það fannst þeim VERULEGA skemmtilegt.

Print Friendly

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *