Uppfærsla

Þangað til nýlega var bölvað vesen á nettengingunni hérna á heimilinu. Netið fraus aftur og aftur, var lengi að ,,hlaða niður” og almennt til leiðinda. En um daginn lenti ég í smá vandræðum með adsl sjónvarpið og þurfti að hringja í þjónustulínu Símans. Aldrei þessu vant komst ég strax að, segi farir mínar ekki sléttar og önug drengsrödd svarar ásakandi : ,,þú ert ekki búin að uppfæra ráderinn – það á að vera búið að því”. Ha????
Svo sagði hann mér hvernig ég átti að fara að því og það reyndist bæði einfalt og fljótlegt. Reyndar lagaði það svo ekki sjónvarpið – vandamálið var allt annað og ég þurfti að hringja aftur – en það var svo sem allt í lagi. Síðan hefur netið ekki frosið og það er líka hraðvirkara en áður. En málið er þetta : Hvernig átti ég að vita um þessa uppfærslu sem ég ,,átti” að vera búin að framkvæma? Átti ég að finna þetta á mér? Vissu þetta kannski allir aðrir?
Mér hefði nú ekki fundist það ofrausn ef Síminn hefði sent mér ofurlítið lettersbréf og bent mér á að nú væri sniðugt að uppfæra beininn. Nógu mikið borga ég á mánuði fyrir netþjónustuna.

Print Friendly

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *